← Romans (2/16) → |
1. | Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. |
2. | Vér vitum, að dómur Guðs er sannarlega yfir þeim er slíkt fremja. |
3. | En hugsar þú það, maður, þú sem dæmir þá er slíkt fremja og gjörir sjálfur hið sama, að þú fáir umflúið dóm Guðs? |
4. | Eða lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar? |
5. | Með harðúð þinni og iðrunarlausa hjarta safnar þú sjálfum þér reiði á reiðidegi, er réttlátur dómur Guðs verður opinber. |
6. | Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans: |
7. | Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika, |
8. | en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu. |
9. | Þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál, er illt fremur, yfir Gyðinginn fyrst, en einnig hinn gríska. |
10. | En vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða, Gyðingurinn fyrst, en einnig hinn gríski. |
11. | Því að Guð fer ekki í manngreinarálit. |
12. | Allir þeir, sem syndgað hafa án lögmáls, munu og án lögmáls tortímast, og allir þeir, sem syndgað hafa undir lögmáli, munu dæmast af lögmáli. |
13. | Og ekki eru heyrendur lögmálsins réttlátir fyrir Guði, heldur munu gjörendur lögmálsins réttlættir verða. |
14. | Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál. |
15. | Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka. |
16. | Það verður á þeim degi, er Guð, samkvæmt fagnaðarerindi mínu, er ég fékk fyrir Jesú Krist, dæmir hið dulda hjá mönnunum. |
17. | En nú ert þú Gyðingur að nafni og styðst við lögmál og ert hreykinn af Guði. |
18. | Þú þekkir vilja hans og kannt að meta rétt það, sem máli skiptir, þar eð lögmálið fræðir þig. |
19. | Þú treystir sjálfum þér til að vera leiðtogi blindra, ljós þeirra sem eru í myrkri, |
20. | kennari fávísra, fræðari óvita, þar sem þú hefur þekkinguna og sannleikann skýrum stöfum í lögmálinu. |
21. | Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó? |
22. | Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? Hefur þú andstyggð á skurðgoðum og rænir þó helgidóma? |
23. | Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið? |
24. | Svo er sem ritað er: ,,Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna.`` |
25. | Umskurn er gagnleg ef þú heldur lögmálið, en ef þú brýtur lögmálið, er umskurn þín orðin að engu. |
26. | Ef því óumskorinn maður fer eftir kröfum lögmálsins, mun hann þá ekki metinn sem umskorinn væri? |
27. | Og mun þá ekki sá, sem er óumskorinn og heldur lögmálið, dæma þig, sem þrátt fyrir bókstaf og umskurn brýtur lögmálið? |
28. | Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu.En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf. Lofstír hans er ekki af mönnum, heldur frá Guði. |
29. | En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf. Lofstír hans er ekki af mönnum, heldur frá Guði. |
← Romans (2/16) → |