← Judges (18/21) → |
1. | Í þá daga var enginn konungur í Ísrael, og í þá daga var ættkvísl Daníta að leita sér að arfleifð til búsetu, því að henni hafði eigi til þess dags hlotnast nein arfleifð meðal ættkvísla Ísraels. |
2. | Dans synir sendu þá fimm hrausta menn af kynþætti sínum, úr sínum hóp, frá Sorea og Estaól til þess að kanna landið og rannsaka það, og sögðu við þá: ,,Farið og rannsakið landið.`` Og þeir komu upp í Efraímfjöll, til húss Míka, og voru þar nætursakir. |
3. | Þegar þeir voru staddir hjá húsi Míka, þekktu þeir málfæri hins unga manns, levítans, og viku þangað og sögðu við hann: ,,Hver hefir fært þig hingað? Hvað hefst þú hér að og hverja kosti hefir þú hér?`` |
4. | Og hann sagði við þá: ,,Svo og svo hefir Míka gjört við mig. Hann leigði mig, og gjörðist ég prestur hans.`` |
5. | Þá sögðu þeir við hann: ,,Gakk þú til frétta við Guð, svo að vér fáum að vita, hvort för sú muni lánast, sem vér nú erum að fara.`` |
6. | Presturinn svaraði þeim: ,,Farið heilir. Förin, sem þér eruð að fara, er Drottni þóknanleg.`` |
7. | Síðan fóru mennirnir fimm leiðar sinnar og komu til Laís, og sáu þeir að fólkið, sem bjó þar, var óhult um sig að hætti Sídoninga, öruggt og óhult, og að ekki var skortur á neinu þar í landi og að fólkið var auðugt. Þeir voru og langt frá Sídoningum og höfðu engin mök við neinn. |
8. | Og þeir komu til bræðra sinna í Sorea og Estaól. Og bræður þeirra sögðu við þá: ,,Hvað hafið þér að segja?`` |
9. | Þeir svöruðu: ,,Af stað! Vér skulum fara í móti þeim, því að vér höfum séð landið, og sjá, það er mjög gott. Og þér eruð aðgjörðalausir! Verið ekki tregir að leggja af stað í ferð þessa til þess að taka landið til eignar. |
10. | Þegar þér komið þangað, munuð þér hitta ugglaust fólk, og landið er víðáttumikið á allar hliðar, því að Guð hefir gefið það í yðar hendur, land, þar sem ekki er skortur á neinu því, sem til er á jörðinni.`` |
11. | Þá tóku sig upp þaðan, frá Sorea og Estaól, sex hundruð menn, búnir hervopnum, af kynþætti Daníta. |
12. | Héldu þeir norður eftir og settu herbúðir sínar í Kirjat Jearím í Júda. Fyrir því er sá staður kallaður ,,Dans herbúðir`` fram á þennan dag, sjá, það er fyrir vestan Kirjat Jearím. |
13. | Þaðan fóru þeir yfir á Efraímfjöll og komu til húss Míka. |
14. | Þá hófu mennirnir fimm máls, þeir er farið höfðu til Laís til þess að kanna landið, og sögðu við frændur sína: ,,Vitið þér, að í þessum húsum er hökullíkneski, húsgoð, skurðlíkneski og steypt líkneski? Hyggið nú að, hvað þér eigið að gjöra!`` |
15. | Og þeir viku þangað og komu í hús hins unga manns, levítans, í hús Míka, og spurðu hann, hvernig honum liði. |
16. | En þeir sex hundruð menn, sem voru af sonum Dans, stóðu búnir hervopnum fyrir utan hliðið, |
17. | og mennirnir fimm, sem farið höfðu að kanna landið, fóru upp og komu þangað, tóku skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. En presturinn stóð fyrir utan hliðið og þeir sex hundruð menn, búnir hervopnum. |
18. | En er þeir voru komnir inn í hús Míka, þá tóku þeir skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. Og presturinn sagði við þá: ,,Hvað hafist þér að?`` |
19. | En þeir svöruðu honum: ,,Þegi þú! Legg þú hönd þína á munn þér og far með oss, og ver þú faðir vor og prestur! Er þér það betra að vera heimilisprestur eins manns heldur en að vera prestur hjá ættkvísl og kynþætti í Ísrael?`` |
20. | Prestur tók þessu feginsamlega og tók hökullíkneskið, húsgoðin og skurðlíkneskið og slóst í för með mönnunum. |
21. | Sneru þeir nú á leið og héldu af stað og létu börn og búsmala og verðmæta hluti fara á undan sér. |
22. | En er þeir voru komnir langt í burt frá húsi Míka, þá voru þeir menn, sem bjuggu í húsunum hjá húsi Míka, kallaðir saman, og eltu þeir Dans syni og náðu þeim. |
23. | Og þeir kölluðu til Dans sona, og sneru þeir sér þá við og sögðu við Míka: ,,Hvað stendur til fyrir þér, er þú kemur svo fjölmennur?`` |
24. | Hann svaraði: ,,Þér hafið tekið guði mína, sem ég hafði gjört mér, og prestinn, og eruð farnir burt. Hvað á ég þá eftir? Hvernig getið þér þá spurt mig: Hvað stendur til fyrir þér?`` |
25. | Þá sögðu Dans synir við hann: ,,Haf engin orð við oss, ella kynnu gremjufullir menn að ráðast á yður og þú verða valdur að því, að bæði þú og þitt hús týni lífi.`` |
26. | Síðan fóru Dans synir leiðar sinnar. En Míka sá, að þeir voru honum ofurefli, og sneri því við og fór aftur heim til sín. |
27. | Þeir tóku skurðlíkneskið, sem Míka hafði til búið, svo og prestinn, sem hann hafði haft, og réðust á Laís, ugglaust fólk og óhult um sig, og felldu þá með sverðseggjum, en lögðu eld í borgina. |
28. | Og þar var enginn, sem kæmi þeim til hjálpar, því að borgin lá langt frá Sídon og þeir höfðu ekki mök við nokkurn mann, enda lá borgin í dalnum, sem er hjá Bet-Rehób. Síðan endurreistu þeir borgina og settust þar að. |
29. | Þeir nefndu borgina Dan, eftir nafni Dans, föður þeirra, er fæddist Ísrael, en í öndverðu hafði borgin heitið Laís. |
30. | Og Dans synir reistu upp skurðlíkneskið handa sér, og Jónatan Gersómsson, Mósesonar, og synir hans voru prestar hjá ættkvísl Daníta, til þess er fólkið var flutt burt úr landinu.Og þeir settu upp skurðlíkneski Míka handa sér, það er hann hafði til búið, og stóð það alla þá stund er Guðs hús var í Síló. |
31. | Og þeir settu upp skurðlíkneski Míka handa sér, það er hann hafði til búið, og stóð það alla þá stund er Guðs hús var í Síló. |
← Judges (18/21) → |