Job (1/42) → |
1. | Einu sinni var maður í Ús-landi. Hann hét Job. Hann var maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. |
2. | Hann átti sjö sonu og þrjár dætur, |
3. | og aflafé hans var sjö þúsund sauða, þrjú þúsund úlfalda, fimm hundruð sameyki nauta, fimm hundruð ösnur og mjög mörg hjú, og var maður sá meiri öllum austurbyggjum. |
4. | Synir hans voru vanir að fara og búa veislu heima hjá sér, hver sinn dag, og þeir buðu systrum sínum þremur að eta og drekka með sér. |
5. | En er veisludagar voru liðnir, sendi Job eftir þeim og helgaði þau. Reis hann árla morguns og fórnaði brennifórn fyrir hvert þeirra. Því að Job hugsaði: ,,Vera má að börn mín hafi syndgað og formælt Guði í hjarta sínu.`` Svo gjörði Job alla daga. |
6. | Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra. |
7. | Mælti þá Drottinn til Satans: ,,Hvaðan kemur þú?`` Satan svaraði Drottni og sagði: ,,Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana.`` |
8. | Og Drottinn mælti til Satans: ,,Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.`` |
9. | Og Satan svaraði Drottni og sagði: ,,Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? |
10. | Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið. |
11. | En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.`` |
12. | Þá mælti Drottinn til Satans: ,,Sjá, veri allt, sem hann á, á þínu valdi, en á sjálfan hann mátt þú ekki leggja hönd þína.`` Gekk Satan þá burt frá augliti Drottins. |
13. | Nú bar svo til einn dag, er synir hans og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns, |
14. | að sendimaður kom til Jobs og sagði: ,,Nautin voru að plægja og ösnurnar voru á beit rétt hjá þeim. |
15. | Gjörðu þá Sabear athlaup og tóku þau, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin.`` |
16. | En áður en hann hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: ,,Eldur Guðs féll af himni og kveikti í hjörðinni og sveinunum og eyddi þeim. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin.`` |
17. | En áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: ,,Kaldear fylktu þremur flokkum, gjörðu áhlaup á úlfaldana og tóku þá, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin.`` |
18. | Áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: ,,Synir þínir og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns. |
19. | Kom þá skyndilega fellibylur austan yfir eyðimörkina og lenti á fjórum hornum hússins, svo að það féll ofan yfir sveinana, og þeir dóu. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin.`` |
20. | Þá stóð Job upp og reif skikkju sína og skar af sér hárið, og féll til jarðar, tilbað |
21. | og sagði: Nakinn kom ég af móðurskauti og nakinn mun ég aftur þangað fara. Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.Í öllu þessu syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð heimskulega. |
22. | Í öllu þessu syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð heimskulega. |
Job (1/42) → |