← Jeremiah (41/52) → |
1. | En á sjöunda mánuði kom Ísmael Netanjason, Elísamasonar, af konungsættinni, og tíu menn með honum til Gedalja Ahíkamssonar í Mispa, og þeir mötuðust þar með honum í Mispa. |
2. | Og Ísmael Netanjason og tíu mennirnir, sem með honum voru, spruttu upp og myrtu Gedalja, er Babelkonungur hafði sett yfir landið, |
3. | svo og alla Júdamenn, er með honum voru í Mispa, og þá Kaldea, er þar voru. |
4. | En á öðrum degi frá því er Gedalja var myrtur og áður en nokkur varð þess vís, |
5. | komu menn frá Sikem, frá Síló og frá Samaríu, áttatíu manns, með skornu skeggi og rifnum klæðum og skinnsprettum á líkamanum. Höfðu þeir með sér matfórnir og reykelsi til þess að bera fram í musteri Drottins. |
6. | Gekk Ísmael Netanjason út í móti þeim frá Mispa, og var hann sígrátandi, er hann gekk. Og er hann mætti þeim, sagði hann við þá: ,,Komið inn til Gedalja Ahíkamssonar!`` |
7. | En jafnskjótt og þeir voru komnir inn í borgina, brytjaði hann þá niður og kastaði þeim í gryfju. |
8. | En meðal þeirra voru tíu menn, sem sögðu við Ísmael: ,,Deyð oss eigi, því að vér eigum niðurgrafnar birgðir úti á akrinum, hveiti og bygg og olíu og hunang.`` Þá hætti hann við og drap þá ekki ásamt bræðrum þeirra. |
9. | En gryfjan, sem Ísmael kastaði í öllum líkum þeirra manna, er hann drap, var stóra gryfjan, sem Asa konungur hafði gjöra látið til varnar gegn Basa Ísraelskonungi. Hana fyllti Ísmael Netanjason vegnum mönnum. |
10. | Því næst flutti Ísmael allar leifar lýðsins, sem voru í Mispa, konungsdæturnar og allan lýðinn, sem eftir var í Mispa, sem Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði sett Gedalja Ahíkamsson yfir _ þá flutti Ísmael Netanjason burt hertekna og hélt af stað til þess að fara yfir til Ammóníta. |
11. | En er Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, fréttu öll þau illvirki, er Ísmael Netanjason hafði framið, |
12. | tóku þeir alla menn sína og lögðu af stað til þess að berjast við Ísmael Netanjason, og varð fundur þeirra við stóru tjörnina hjá Gíbeon. |
13. | En er allur lýðurinn, sem var með Ísmael, sá Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana, sem með honum voru, gladdist hann, |
14. | og allur lýðurinn, sem Ísmael hafði flutt hertekinn frá Mispa, sneri við og hvarf aftur og gekk í lið með Jóhanan Kareasyni. |
15. | En Ísmael Netanjason komst undan Jóhanan við áttunda mann og fór til Ammóníta. |
16. | Því næst tók Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, allar leifar lýðsins, er Ísmael Netanjason hafði flutt herteknar frá Mispa, eftir að hann hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, menn, konur og börn og geldinga, er hann hafði flutt aftur frá Gíbeon, |
17. | og þeir lögðu af stað og námu staðar í Gerút-Kimham, sem er hjá Betlehem, til þess að halda þaðan áfram ferðinni til Egyptalands,til þess að komast undan Kaldeum, sem þeir óttuðust, af því að Ísmael Netanjason hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, er Babelkonungur hafði sett yfir landið. |
18. | til þess að komast undan Kaldeum, sem þeir óttuðust, af því að Ísmael Netanjason hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, er Babelkonungur hafði sett yfir landið. |
← Jeremiah (41/52) → |