← Genesis (7/50) → |
1. | Drottinn sagði við Nóa: ,,Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð. |
2. | Tak þú til þín af öllum hreinum dýrum sjö og sjö, karldýr og kvendýr, en af þeim dýrum, sem ekki eru hrein, tvö og tvö, karldýr og kvendýr. |
3. | Einnig af fuglum loftsins sjö og sjö, karlkyns og kvenkyns, til að viðhalda lífsstofni á allri jörðinni. |
4. | Því að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og ég mun afmá af jörðinni sérhverja skepnu, sem ég hefi gjört.`` |
5. | Og Nói gjörði allt eins og Drottinn bauð honum. |
6. | En Nói var sex hundruð ára gamall, þegar vatnsflóðið kom yfir jörðina. |
7. | Og Nói gekk í örkina, og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum, undan vatnsflóðinu. |
8. | Af hreinum dýrum og af þeim dýrum, sem ekki voru hrein, og af fuglum og af öllu, sem skríður á jörðinni, |
9. | kom tvennt og tvennt til Nóa í örkina, karlkyns og kvenkyns, eins og Guð hafði boðið Nóa. |
10. | Eftir sjö daga kom vatnsflóðið yfir jörðina. |
11. | Á sexhundraðasta aldursári Nóa, í öðrum mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á þeim degi opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp. |
12. | Og steypiregn dundi yfir jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur. |
13. | Einmitt á þeim degi gekk Nói og Sem, Kam og Jafet, synir Nóa, og kona Nóa og þrjár sonakonur hans með þeim í örkina, |
14. | þau og öll villidýrin eftir sinni tegund og allur fénaðurinn eftir sinni tegund og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni, eftir sinni tegund, og allir fuglarnir eftir sinni tegund, allir smáfuglar, allt fleygt. |
15. | Og þau komu til Nóa í örkina tvö og tvö af öllu holdi, sem lífsandi var í. |
16. | Og þau, sem komu, gengu inn, karlkyns og kvenkyns af öllu holdi, eins og Guð hafði boðið honum. Og Drottinn læsti eftir honum. |
17. | Og flóðið var á jörðinni fjörutíu daga. Vatnið óx og lyfti örkinni, og hún hófst yfir jörðina. |
18. | Og vötnin mögnuðust og uxu stórum á jörðinni, en örkin flaut ofan á vatninu. |
19. | Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf. |
20. | Fimmtán álna hátt óx vatnið, svo að fjöllin fóru í kaf. |
21. | Þá dó allt hold, sem hreyfðist á jörðinni, bæði fuglar, fénaður, villidýr og allir ormar, sem skriðu á jörðinni, og allir menn. |
22. | Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó. |
23. | Og þannig afmáði hann sérhverja skepnu, sem var á jörðinni, bæði menn og fénað, skriðkvikindi og fugla loftsins. Það var afmáð af jörðinni. En Nói einn varð eftir, og það sem með honum var í örkinni.Og vötnin mögnuðust á jörðinni hundrað og fimmtíu daga. |
24. | Og vötnin mögnuðust á jörðinni hundrað og fimmtíu daga. |
← Genesis (7/50) → |