← Genesis (38/50) → |
1. | Um þessar mundir bar svo við, að Júda fór frá bræðrum sínum og lagði lag sitt við mann nokkurn í Adúllam, sem Híra hét. |
2. | Þar sá Júda dóttur kanversks manns, sem Súa hét, og tók hana og hafði samfarir við hana. |
3. | Og hún varð þunguð og ól son, og hún nefndi hann Ger. |
4. | Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son, og hún nefndi hann Ónan. |
5. | Og enn ól hún son og nefndi hann Sela. En hún var í Kesíb, er hún ól hann. |
6. | Og Júda tók konu til handa Ger, frumgetnum syni sínum. Hún hét Tamar. |
7. | En Ger, frumgetinn sonur Júda, var vondur í augum Drottins, svo að Drottinn lét hann deyja. |
8. | Þá mælti Júda við Ónan: ,,Gakk þú inn til konu bróður þíns og gegn þú mágskyldunni við hana, að þú megir afla bróður þínum afkvæmis.`` |
9. | En með því að Ónan vissi, að afkvæmið skyldi eigi verða hans, þá lét hann sæðið spillast á jörðu í hvert sinn er hann gekk inn til konu bróður síns, til þess að hann aflaði eigi bróður sínum afkvæmis. |
10. | En Drottni mislíkaði það, er hann gjörði, og lét hann einnig deyja. |
11. | Þá sagði Júda við Tamar tengdadóttur sína: ,,Ver þú sem ekkja í húsi föður þíns, þangað til Sela sonur minn verður fulltíða.`` Því að hann hugsaði: ,,Ella mun hann og deyja, eins og bræður hans.`` Fór Tamar þá burt og var í húsi föður síns. |
12. | En er fram liðu stundir, andaðist dóttir Súa, kona Júda. Og er Júda lét af harminum, fór hann upp til Timna, til sauðaklippara sinna, hann og Híra vinur hans frá Adúllam. |
13. | Var þá Tamar sagt svo frá: ,,Sjá, tengdafaðir þinn fer upp til Timna að klippa sauði sína.`` |
14. | Þá fór hún úr ekkjubúningi sínum, huldi sig blæju og hjúpaði sig og settist við hlið Enaímborgar, sem er við veginn til Timna. Því að hún sá, að Sela var orðinn fulltíða, og hún var þó ekki honum gefin fyrir konu. |
15. | Júda sá hana og hugði, að hún væri skækja, því að hún hafði hulið andlit sitt. |
16. | Og hann vék til hennar við veginn og mælti: ,,Leyf mér að leggjast með þér!`` Því að hann vissi ekki, að hún var tengdadóttir hans. Hún svaraði: ,,Hvað viltu gefa mér til þess, að þú megir leggjast með mér?`` |
17. | Og hann mælti: ,,Ég skal senda þér hafurkið úr hjörðinni.`` Hún svaraði: ,,Fáðu mér þá pant, þangað til þú sendir það.`` |
18. | Þá mælti hann: ,,Hvaða pant skal ég fá þér?`` En hún svaraði: ,,Innsiglishring þinn og festi þína og staf þinn, sem þú hefir í hendinni.`` Og hann fékk henni þetta og lagðist með henni, og hún varð þunguð af hans völdum. |
19. | Því næst stóð hún upp, gekk burt og lagði af sér blæjuna og fór aftur í ekkjubúning sinn. |
20. | Og Júda sendi hafurkiðið með vini sínum frá Adúllam, svo að hann fengi aftur pantinn af hendi konunnar, en hann fann hana ekki. |
21. | Og hann spurði menn í þeim stað og sagði: ,,Hvar er portkonan, sem sat við veginn hjá Enaím?`` En þeir svöruðu: ,,Hér hefir engin portkona verið.`` |
22. | Fór hann þá aftur til Júda og mælti: ,,Ég fann hana ekki, enda sögðu menn í þeim stað: ,Hér hefir engin portkona verið.``` |
23. | Þá mælti Júda: ,,Haldi hún því, sem hún hefir, að vér verðum ekki hafðir að spotti. Sjá, ég sendi þetta kið, en þú hefir ekki fundið hana.`` |
24. | Að þrem mánuðum liðnum var Júda sagt: ,,Tamar tengdadóttir þín hefir drýgt hór, og meira að segja: Hún er þunguð orðin í hórdómi.`` Þá mælti Júda: ,,Leiðið hana út, að hún verði brennd.`` |
25. | En er hún var út leidd, gjörði hún tengdaföður sínum þessa orðsending: ,,Af völdum þess manns, sem þetta á, er ég þunguð orðin.`` Og hún sagði: ,,Hygg þú að, hver eiga muni innsiglishring þennan, festi og staf.`` |
26. | En Júda kannaðist við gripina og mælti: ,,Hún hefir betri málstað en ég, fyrir þá sök að ég hefi eigi gift hana Sela syni mínum.`` Og hann kenndi hennar ekki upp frá því. |
27. | En er hún skyldi verða léttari, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar. |
28. | Og í fæðingunni rétti annar út höndina. Tók þá ljósmóðirin rauðan þráð og batt um hönd hans og sagði: ,,Þessi kom fyrr í ljós.`` |
29. | En svo fór, að hann kippti aftur að sér hendinni, og þá kom bróðir hans í ljós. Þá mælti hún: ,,Hví hefir þú brotist svo fram þér til góða?`` Og hún nefndi hann Peres.Eftir það fæddist bróðir hans, og var rauði þráðurinn um hönd hans. Og hún nefndi hann Sera. |
30. | Eftir það fæddist bróðir hans, og var rauði þráðurinn um hönd hans. Og hún nefndi hann Sera. |
← Genesis (38/50) → |