← Ezekiel (30/48) → |
1. | Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: |
2. | ,,Mannsson, spá og seg: Svo segir Drottinn Guð: Æpið vei yfir deginum! |
3. | Því að dagur er nálægur, já, dagur Drottins er nálægur, dagur skýþykknis, endadægur þjóðanna mun það verða. |
4. | Og sverð mun koma til Egyptalands, og Bláland mun skelfast, þá er menn hníga helsærðir á Egyptalandi, og auðæfi þess verða burt flutt og undirstöðum þess rótað upp. |
5. | Blálendingar, Pútítar, Lúdítar og allur þjóðblendingurinn og Líbýumenn og Kretar munu fyrir sverði falla ásamt þeim. |
6. | Svo segir Drottinn: Þá munu stoðir Egyptalands falla og hið dýrlega skraut þess hníga. Frá Migdól og allt til Sýene skulu menn fyrir sverði falla í því, _ segir Drottinn Guð. |
7. | Og það mun verða að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess munu liggja innan um borgir, sem eru í rústum. |
8. | Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég legg eld í Egyptaland og allir liðveislumenn þess verða muldir sundur. |
9. | Á þeim degi munu sendiboðar fara frá mér á skipum, til þess að færa hinum ugglausu Blálendingum hin hræðilegu tíðindi, og þeir munu skelfast vegna ógæfudags Egyptalands, því að sjá, hann kemur. |
10. | Svo segir Drottinn Guð: Þannig mun ég láta Nebúkadresar konung í Babýlon enda gjöra á mikillæti Egyptalands. |
11. | Hann mun verða sóttur og lið hans með honum, hinar grimmustu þjóðir, til þess að herja landið, og þeir munu bregða sverðum sínum gegn Egyptalandi og fylla landið vegnum mönnum. |
12. | Og ég mun þurrka upp árkvíslarnar og selja Egyptaland í hendur illmenna og láta útlenda menn eyða landið og öllu, sem í því er. Ég, Drottinn, hefi talað það. |
13. | Svo segir Drottinn Guð: Ég gjöri skurðgoðin að engu og uppræti falsguðina úr Nóf og höfðingjana af Egyptalandi, svo að engir skulu þar framar til vera, og ég mun skelfa Egyptaland. |
14. | Og ég eyði Patrós og legg eld í Sóan og framkvæmi refsidóma á Nó. |
15. | Og ég úthelli heift minni yfir Sín, varnarvirki Egyptalands, og tortími hinum ysmikla múg í Nó. |
16. | Ég legg eld í Egyptaland, Sín mun nötra og skarð mun brotið verða inn í Nó og múrar hennar niður rifnir. |
17. | Æskumennirnir í Ón og Píbeset munu fyrir sverði falla og íbúar annarra borga fara í útlegð. |
18. | Í Takpanes mun dagurinn myrkvast, er ég sundurbrýt þar veldissprota Egyptalands og hið dýrlega skraut þess verður að engu gjört. Skýþykkni mun hylja hana, og dætur hennar munu fara í útlegð. |
19. | Þannig mun ég láta refsidóma koma yfir Egyptaland, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.`` |
20. | En á ellefta árinu, sjöunda dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: |
21. | ,,Mannsson, ég hefi brotið armlegg Faraós, Egyptalandskonungs, og sjá, það skal eigi verða um hann bundið, til þess að gjöra hann heilan, með því að setja á hann sáraumbúðir, til þess að hann styrktist aftur og fengi gripið sverðið. |
22. | Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal finna Faraó, Egyptalandskonung, ég skal brjóta armleggi hans, hinn heila og hinn brotna, og slá sverðið úr hendi hans. |
23. | Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin. |
24. | Og ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon og fá honum sverð mitt í hönd, en armleggi Faraós skal ég brjóta, svo að hann skal liggja stynjandi fyrir fótum hans, eins og helstunginn maður. |
25. | Ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon, en armleggir Faraós skulu niður síga, og menn skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég fæ Babelkonungi sverð mitt í hönd, og hann reiðir það að Egyptalandi.Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.`` |
26. | Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.`` |
← Ezekiel (30/48) → |