← Exodus (25/40) → |
1. | Drottinn talaði við Móse og sagði: |
2. | ,,Seg Ísraelsmönnum að þeir færi mér gjafir. Af hverjum þeim manni skuluð þér gjöf taka mér til handa, sem gefur hana af fúsum huga. |
3. | Og þessar eru gjafir þær, sem þér skuluð af þeim taka: gull, silfur og eir; |
4. | blár purpuri, rauður purpuri, skarlat, baðmull og geitahár; |
5. | rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuviður; |
6. | olía til ljósastikunnar, kryddjurtir til ilmsmyrsla og ilmreykelsis; |
7. | sjóamsteinar og steinar til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn. |
8. | Og þeir skulu gjöra mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra. |
9. | Þér skuluð gjöra hann í öllum greinum eftir þeirri fyrirmynd af tjaldbúðinni og eftir þeirri fyrirmynd af öllum áhöldum hennar, sem ég mun sýna þér. |
10. | Þeir skulu gjöra örk af akasíuviði. Hún skal vera hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð. |
11. | Hana skaltu leggja skíru gulli, innan og utan skaltu gullleggja hana, og umhverfis á henni skaltu gjöra brún af gulli. |
12. | Þú skalt steypa til arkarinnar fjóra hringa af gulli og festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin. |
13. | Þú skalt gjöra stengur af akasíuviði og gullleggja þær. |
14. | Síðan skalt þú smeygja stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera megi örkina á þeim. |
15. | Skulu stengurnar vera kyrrar í hringum arkarinnar, eigi má taka þær þaðan. |
16. | Og þú skalt leggja niður í örkina sáttmálið, er ég mun fá þér í hendur. |
17. | Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli. Skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. |
18. | Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorum tveggja loksendanum. |
19. | Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. |
20. | En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa. |
21. | Þú skalt setja lokið ofan yfir örkina, og niður í örkina skalt þú leggja sáttmálið, sem ég mun fá þér. |
22. | Og þar vil ég eiga samfundi við þig og birta þér ofan af arkarlokinu millum beggja kerúbanna, sem standa á sáttmálsörkinni, allt það, er ég býð þér að flytja Ísraelsmönnum. |
23. | Þú skalt og gjöra borð af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð. |
24. | Þú skalt leggja það skíru gulli og gjöra umhverfis á því brún af gulli. |
25. | Umhverfis það skalt þú gjöra lista þverhandar breiðan og búa til brún af gulli umhverfis á listanum. |
26. | Þá skalt þú gjöra til borðsins fjóra hringa af gulli og setja hringana í fjögur hornin, sem eru á fjórum fótum borðsins. |
27. | Skulu hringarnir vera fast upp við listann, svo að í þá verði smeygt stöngum til þess að bera borðið. |
28. | Stengurnar skalt þú gjöra af akasíuviði og gullleggja þær. Á þeim skal borðið bera. |
29. | Og þú skalt gjöra föt þau, sem borðinu tilheyra, skálar og bolla, og ker þau, sem til dreypifórnar eru höfð. Af skíru gulli skalt þú gjöra þau. |
30. | En á borðið skalt þú ætíð leggja skoðunarbrauð frammi fyrir mér. |
31. | Enn fremur skalt þú ljósastiku gjöra af skíru gulli. Með drifnu smíði skal ljósastikan gjör, stétt hennar og leggur. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, skulu vera samfastir henni. |
32. | Og sex álmur skulu liggja út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. |
33. | Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo skal vera á öllum sex álmunum, sem út ganga frá ljósastikunni. |
34. | Og á sjálfri ljósastikunni skulu vera fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: |
35. | einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo undir sex álmunum, er út ganga frá ljósastikunni. |
36. | Knapparnir og álmurnar skulu vera samfastar henni. Allt skal það gjört með drifnu smíði af skíru gulli. |
37. | Þú skalt gjöra lampa hennar sjö og skalt svo upp setja lampana, að þeir beri birtu yfir svæðið fyrir framan hana. |
38. | Ljósasöx og skarpönnur, sem ljósastikunni fylgja, skulu vera af skíru gulli. |
39. | Af einni talentu skíragulls skal hana gjöra með öllum þessum áhöldum.Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu. |
40. | Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu. |
← Exodus (25/40) → |