← Daniel (5/12) → |
1. | Belsasar konungur hélt veislu mikla þúsund stórmennum sínum og drakk vín í augsýn þeirra þúsund. |
2. | En er menn tóku að gjörast vínhreifir, bauð Belsasar að sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar faðir hans hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem, til þess að konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur mættu drekka af þeim. |
3. | Þá voru fram borin gullker þau, sem tekin höfðu verið úr musterinu, húsi Guðs í Jerúsalem, og konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur drukku af þeim. |
4. | Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini. |
5. | Á sömu stundu komu fram fingur af mannshendi og rituðu á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, og konungurinn sá fingur handarinnar, sem ritaði. |
6. | Þá gjörðist konungur litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu. |
7. | Konungur kallaði hástöfum, að sækja skyldi særingamennina, Kaldeana og stjörnuspekingana. Konungur tók til máls og sagði við vitringana í Babýlon: ,,Hver sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, skal klæddur verða purpura og bera gullfesti á hálsi sér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu!`` |
8. | Þá komu allir vitringar konungs þangað, en þeir gátu ekki lesið letrið og sagt konungi þýðing þess. |
9. | Þá varð Belsasar konungur mjög felmtsfullur og gjörðist litverpur, en fát mikið kom á stórmenni hans. |
10. | Út af orðræðu konungs og stórmenna hans gekk drottning inn í veislusalinn. Drottning tók til máls og sagði: ,,Konungurinn lifi eilíflega! Lát eigi hugsanir þínar skelfa þig og gjörst eigi svo litverpur. |
11. | Sá maður er í ríki þínu, er andi hinna heilögu guða býr í, og á dögum föður þíns fannst með honum skýrleikur, þekking og speki, lík speki guðanna, og Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, gjörði hann að yfirhöfðingja spásagnamannanna, særingamannanna, Kaldeanna og stjörnuspekinganna. Þetta gjörði faðir þinn, konungur, |
12. | af því að með Daníel, er konungurinn kallaði Beltsasar, fannst frábær andi og kunnátta og þekking til að þýða drauma, ráða gátur og greiða úr vandamálum. Lát nú kalla Daníel, og mun hann segja, hvað þetta merkir.`` |
13. | Þá var Daníel leiddur inn fyrir konung. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: ,,Ert þú Daníel, einn af þeim herleiddu Gyðingum, sem konungurinn, faðir minn, flutti burt frá Júda? |
14. | Ég hefi um þig heyrt, að andi guðanna búi í þér og að skýrleikur, þekking og frábær speki finnist með þér. |
15. | Nú hefi ég látið leiða inn fyrir mig vitringana og særingamennina til þess að lesa þetta letur og segja mér þýðing þess, en þeir geta ekki sagt, hvað þessi orð þýða. |
16. | En ég hefi heyrt um þig, að þú kunnir þýðingar að finna og úr vandamálum að greiða. Ef þú nú getur lesið þetta letur og sagt mér þýðing þess, þá skalt þú klæddur verða purpura, bera gullfesti á hálsi þér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.`` |
17. | Þá tók Daníel til máls og sagði við konung: ,,Haltu sjálfur gáfum þínum og gef einhverjum öðrum gjafir þínar, en letrið mun ég lesa fyrir konunginn og segja honum þýðing þess. |
18. | Þú konungur! Guð hinn hæsti veitti Nebúkadnesar föður þínum ríki, vald, vegsemd og tign. |
19. | Og sökum þess veldis, sem hann hafði veitt honum, hræddust hann allir lýðir, þjóðir og tungur, og stóð þeim ótti af honum. Hann tók af lífi hvern sem hann vildi og hann lét lífi halda hvern sem hann vildi, hann hóf hvern er hann vildi og hann lægði hvern er hann vildi. |
20. | En er hjarta hans metnaðist og hugur hans gjörðist ofdrambsfullur, þá var honum hrundið úr konungshásætinu og tignin tekin frá honum. |
21. | Hann var rekinn úr mannafélagi og hjarta hans varð líkt dýrshjarta. Hann átti byggð meðal skógarasna, og honum var gefið gras að eta eins og uxum, og líkami hans vöknaði af dögg himins, þar til er hann kannaðist við, að Guð hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og veitir hann hverjum sem hann vill. |
22. | Og þú, Belsasar, sonur hans, hefir ekki lítillætt hjarta þitt, þótt þú vissir allt þetta, |
23. | heldur hefir þú sett þig upp á móti Drottni himnanna og látið færa þér kerin úr húsi hans, og þú og stórmenni þín, konur þínar og hjákonur hafið drukkið vín af þeim. Og þú hefir vegsamað guði úr silfri, gulli, eiri, járni, tré og steini, sem ekki sjá, ekki heyra og ekkert vita, en þann Guð, sem hefir lífsanda þinn í hendi sér og ráð hefir á öllum högum þínum, hann hefir þú ekki tignað. |
24. | Samstundis voru fingur handarinnar frá honum sendir og þetta letur ritað. |
25. | En letrið, sem ritað er, er þetta: mene, mene, tekel ufarsin. |
26. | Þessi er þýðing orðanna: mene, Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda; |
27. | tekel, þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn; |
28. | peres, ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum.`` |
29. | Því næst bauð Belsasar að klæða Daníel purpura og láta gullfesti um háls honum og gjöra heyrinkunnugt, að hann skyldi vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.Á hinni sömu nótt var Belsasar Kaldeakonungur drepinn. |
30. | Á hinni sömu nótt var Belsasar Kaldeakonungur drepinn. |
← Daniel (5/12) → |