← Daniel (10/12) → |
1. | Á þriðja ári Kýrusar Persakonungs fékk Daníel, sem kallaður var Beltsasar, opinberun, og opinberunin er sönn og boðar miklar þrengingar. Og hann gaf gætur að opinberuninni og hugði að sýninni. |
2. | Á þeim dögum var ég, Daníel, harmandi þriggja vikna tíma. |
3. | Ég neytti engrar dýrindisfæðu, kjöt og vín kom ekki inn fyrir varir mínar, og ég smurði mig ekki fyrr en þrjár vikur voru liðnar. |
4. | En tuttugasta og fjórða dag hins fyrsta mánaðar var ég staddur á bakka hins mikla Tígrisfljóts. |
5. | Þá hóf ég upp augu mín og sá mann nokkurn, klæddan línklæðum og gyrtan skíragulli um lendar. |
6. | Líkami hans var sem krýsolít, ásjóna hans sem leiftur, augu hans sem eldblys, armleggir hans og fætur sem skyggður eir og hljómurinn af orðum hans eins og mikill gnýr. |
7. | Ég, Daníel, sá einn sýnina, og mennirnir, sem með mér voru, sáu ekki sýnina, en yfir þá kom mikil hræðsla, og flýðu þeir í felur. |
8. | Ég varð þá einn eftir og sá þessa miklu sýn. En hjá mér var enginn máttur eftir orðinn, og yfirlitur minn var til lýta umbreyttur, og ég hélt engum styrk eftir. |
9. | Og ég heyrði hljóminn af orðum hans, og er ég heyrði hljóminn af orðum hans, hné ég í ómegin á ásjónu mína, með andlitið að jörðinni. |
10. | Og sjá, hönd snart mig og hjálpaði mér óstyrkum upp á knén og hendurnar. |
11. | Og hann sagði við mig: ,,Daníel, þú ástmögur Guðs, tak eftir þeim orðum, er ég tala við þig, og statt á fætur, því að ég er nú einmitt til þín sendur.`` Og er hann mælti til mín þessum orðum, stóð ég upp skjálfandi. |
12. | Því næst sagði hann við mig: ,,Óttast þú ekki, Daníel, því að frá því er þú fyrst hneigðir hug þinn til að öðlast skilning og þú lítillættir þig fyrir Guði þínum, eru orð þín heyrð, og ég er vegna orða þinna hingað kominn. |
13. | En verndarengill Persaríkis stóð í móti mér tuttugu og einn dag, en sjá, Míkael, einn af fremstu verndarenglunum, kom mér til hjálpar, og hann skildi ég eftir þar hjá Persakonungum. |
14. | Og nú er ég kominn til að fræða þig á því, sem fram við þjóð þína mun koma á hinum síðustu tímum, því að enn á sýnin við þá daga.`` |
15. | Og er hann talaði þessum orðum til mín, leit ég til jarðar og þagði. |
16. | Og sjá, einhver í mannslíki snart varir mínar, og ég lauk upp munni mínum, talaði og sagði við þann, sem stóð frammi fyrir mér: ,,Herra minn, sökum sýnarinnar eru kvalir þessar yfir mig komnar, og kraftur minn er þrotinn. |
17. | Og hvernig ætti ég, þjónn þinn, herra, að geta talað við slíkan mann sem þú ert, herra? Og nú er allur kraftur minn að þrotum kominn, og enginn lífsandi er í mér eftir orðinn.`` |
18. | Sá sem í mannslíki var, snart mig þá aftur, styrkti mig |
19. | og sagði: ,,Óttast þú ekki, ástmögur, friður sé með þér! Vertu hughraustur, vertu hughraustur!`` Og er hann talaði við mig, fann ég að ég styrktist og sagði: ,,Tala þú, herra minn, því að þú hefir gjört mig styrkan.`` |
20. | Þá sagði hann: ,,Veistu, hvers vegna ég er til þín kominn? En nú verð ég að snúa aftur til þess að berjast við verndarengil Persíu, og þegar ég fer af stað, sjá, þá kemur verndarengill Grikklands.Þó vil ég gjöra þér kunnugt, hvað skrifað er í bók sannleikans, þótt enginn veiti mér lið móti þeim, nema Míkael, verndarengill yðar. |
21. | Þó vil ég gjöra þér kunnugt, hvað skrifað er í bók sannleikans, þótt enginn veiti mér lið móti þeim, nema Míkael, verndarengill yðar. |
← Daniel (10/12) → |