← Acts (16/28) → |
1. | Hann kom til Derbe og Lýstru. Þar var lærisveinn nokkur, Tímóteus að nafni, sonur trúaðrar konu af Gyðinga ætt, en faðir hans var grískur. |
2. | Bræðurnir í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð. |
3. | Páll vildi hafa hann með sér og umskar hann sökum Gyðinga, er voru í þeim byggðum, því að allir vissu þeir, að faðir hans var grískur. |
4. | Þeir fóru nú um borgirnar, fluttu mönnum þær ályktanir, sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt, og buðu að varðveita þær. |
5. | En söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi. |
6. | Þeir fóru um Frýgíu og Galataland, því heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu. |
7. | Og sem þeir voru komnir að Mýsíu, reyndu þeir að fara til Biþýníu, en andi Jesú leyfði það eigi. |
8. | Þeir fóru þá um Mýsíu og komu niður til Tróas. |
9. | Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: ,,Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!`` |
10. | En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn, leituðum vér færis að komast til Makedóníu, þar sem vér skildum, að Guð hafði kallað oss til þess að flytja þeim fagnaðarerindið. |
11. | Nú lögðum vér út frá Tróas og sigldum beint til Samóþrake, en næsta dag til Neapólis |
12. | og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst vér nokkra daga. |
13. | Hvíldardaginn gengum vér út fyrir hliðið að á einni, en þar hugðum vér vera bænastað. Settumst vér niður og töluðum við konurnar, sem voru þar saman komnar. |
14. | Kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði. |
15. | Hún var skírð og heimili hennar og hún bað oss: ,,Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin.`` Þessu fylgdi hún fast fram. |
16. | Eitt sinn, er vér gengum til bænastaðarins, mætti oss ambátt nokkur, sem hafði spásagnaranda og aflaði húsbændum sínum mikils gróða með því að spá. |
17. | Hún elti Pál og oss og hrópaði: ,,Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæsta, og boða þeir yður veg til hjálpræðis!`` |
18. | Þetta gjörði hún dögum saman. Páli féll það illa. Loks sneri hann sér við og sagði við andann: ,,Ég býð þér í nafni Jesú Krists að fara út af henni.`` Og hann fór út á samri stundu. |
19. | Nú sem húsbændur hennar sáu, að þar fór ábatavon þeirra, gripu þeir Pál og Sílas og drógu þá á torgið fyrir valdsmennina. |
20. | Þeir færðu þá til höfuðsmannanna og sögðu: ,,Menn þessir gjöra mestu óspektir í borg vorri. Þeir eru Gyðingar |
21. | og boða siði, sem oss, rómverskum mönnum, leyfist hvorki að þýðast né fylgja.`` |
22. | Múgurinn réðst og gegn þeim, og höfuðsmennirnir létu fletta þá klæðum og skipuðu að húðstrýkja þá. |
23. | Og er þeir höfðu lostið þá mörg högg, vörpuðu þeir þeim í fangelsi og buðu fangaverðinum að gæta þeirra vandlega. |
24. | Þegar hann hafði fengið slíka skipun, varpaði hann þeim í innsta fangelsið og felldi stokk á fætur þeim. |
25. | Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði, en bandingjarnir hlustuðu á þá. |
26. | Þá varð skyndilega landskjálfti mikill, svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr, og fjötrarnir féllu af öllum. |
27. | Fangavörðurinn vaknaði við, og er hann sá fangelsisdyrnar opnar, dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér, þar eð hann hugði fangana flúna. |
28. | Þá kallaði Páll hárri raustu: ,,Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!`` |
29. | En hann bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi. |
30. | Síðan leiddi hann þá út og sagði: ,,Herrar mínir, hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?`` |
31. | En þeir sögðu: ,,Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.`` |
32. | Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans. |
33. | Á þessari sömu næturstund tók hann þá með sér og laugaði meiðsli þeirra eftir höggin, og var hann þegar skírður og allt hans fólk. |
34. | Síðan fór hann með þá upp í hús sitt, bar þeim mat, og var hann og allt heimafólk hans fagnandi yfir því að hafa tekið trú á Guð. |
35. | Þegar dagur rann, sendu höfuðsmennirnir vandsveina og sögðu: ,,Lát þú menn þessa lausa.`` |
36. | Fangavörðurinn flutti Páli þessi orð: ,,Höfuðsmennirnir hafa sent boð um, að þið skuluð látnir lausir. Gangið nú út og farið í friði.`` |
37. | En Páll sagði við þá: ,,Þeir hafa opinberlega látið húðstrýkja okkur, rómverska menn, án dóms og laga og varpa í fangelsi, og nú ætla þeir leynilega að hleypa okkur út. Ég held nú síður. Þeir skulu koma sjálfir og leiða okkur út.`` |
38. | Vandsveinarnir fluttu höfuðsmönnunum þessi orð. En þeir urðu hræddir, er þeir heyrðu, að þeir væru rómverskir, |
39. | og komu og friðmæltust við þá, leiddu þá út og báðu þá að fara burt úr borginni.Þegar þeir voru komnir út úr fangelsinu, fóru þeir heim til Lýdíu, fundu bræðurna og hughreystu þá. Síðan héldu þeir af stað. |
40. | Þegar þeir voru komnir út úr fangelsinu, fóru þeir heim til Lýdíu, fundu bræðurna og hughreystu þá. Síðan héldu þeir af stað. |
← Acts (16/28) → |