← 2Kings (5/25) → |
1. | Naaman, hershöfðingi Sýrlandskonungs, var í miklum metum hjá herra sínum og í hávegum hafður, því að undir forustu hans hafði Drottinn veitt Sýrlendingum sigur. Var maðurinn hinn mesti kappi, en líkþrár. |
2. | Sýrlendingar höfðu farið herför í smáflokkum og haft burt af Ísraelslandi unga stúlku. Þjónaði hún konu Naamans. |
3. | Hún sagði við húsmóður sína: ,,Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi losa hann við líkþrána.`` |
4. | Þá fór Naaman og sagði herra sínum frá á þessa leið: ,,Svo og svo hefir stúlkan frá Ísraelslandi talað.`` |
5. | Þá mælti Sýrlandskonungur: ,,Far þú, ég skal senda Ísraelskonungi bréf.`` Lagði Naaman þá af stað og tók með sér tíu talentur silfurs, sex þúsund sikla gulls og tíu alklæðnaði. |
6. | Hann færði Ísraelskonungi bréfið, er var á þessa leið: ,,Þegar bréf þetta kemur þér í hendur, þá skalt þú vita, að ég hefi sent til þín Naaman þjón minn, og skalt þú losa hann við líkþrá hans.`` |
7. | En er Ísraelskonungur hafði lesið bréfið, reif hann klæði sín og mælti: ,,Er ég þá Guð, er deytt geti og lífgað, fyrst hann gjörir mér orð um að losa mann við líkþrá hans? Megið þér þar sjá og skynja, að hann leitar saka við mig.`` |
8. | En er Elísa, guðsmaðurinn, frétti, að Ísraelskonungur hefði rifið klæði sín, sendi hann til konungs og lét segja honum: ,,Hví rífur þú klæði þín? Komi hann til mín, þá skal hann komast að raun um, að til er spámaður í Ísrael.`` |
9. | Þá kom Naaman með hesta sína og vagna og nam staðar úti fyrir húsdyrum Elísa. |
10. | Þá sendi Elísa mann til hans og lét segja honum: ,,Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!`` |
11. | Þá varð Naaman reiður og gekk burt og mælti: ,,Ég hugði þó, að hann mundi koma út til mín og ganga að mér og ákalla nafn Drottins, Guðs síns, veifa hendinni í áttina til helgistaðarins og koma þannig líkþránni burt. |
12. | Eru ekki Abana og Farfar, fljótin hjá Damaskus, betri en allar ár í Ísrael? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?`` Sneri hann sér þá við og hélt burt í reiði. |
13. | Þá gengu þjónar hans til hans, töluðu til hans og sögðu: ,,Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, mundir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: ,Lauga þig og munt þú hreinn verða`?`` |
14. | Þá fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan, eins og guðsmaðurinn hafði sagt. Varð þá hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn. |
15. | Þá hvarf hann aftur til guðsmannsins og allt hans föruneyti, og er hann kom þangað, gekk hann fyrir hann og mælti: ,,Nú veit ég, að enginn Guð er til í neinu landi nema í Ísrael, og þigg nú gjöf af þjóni þínum.`` |
16. | En Elísa mælti: ,,Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er ég þjóna: Ég tek ekki við neinu!`` Og þótt hann legði að honum að taka við því, þá færðist hann undan. |
17. | Þá mælti Naaman: ,,Ef ekki, þá lát þó gefa þjóni þínum mold á tvo múla, því að þjónn þinn mun eigi framar færa brennifórnir og sláturfórnir neinum guðum öðrum en Drottni. |
18. | Það eitt verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum: Þegar herra minn gengur í musteri Rimmons til þess að biðjast þar fyrir, og hann þá styðst við hönd mína, svo að ég fell fram í musteri Rimmons, þegar hann fellur fram í musteri Rimmons, _ það verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum.`` |
19. | En Elísa mælti til hans: ,,Far þú í friði.`` En er Naaman var kominn spölkorn frá honum, |
20. | þá sagði Gehasí, sveinn Elísa, guðsmannsins, við sjálfan sig: ,,Sjá, herra minn hefir hlíft Naaman þessum sýrlenska og ekki þegið af honum það, sem hann kom með. Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal ég hlaupa á eftir honum og þiggja eitthvað af honum.`` |
21. | Hélt Gehasí nú á eftir Naaman. En er Naaman sá mann koma hlaupandi á eftir sér, stökk hann af vagninum, gekk í móti honum og mælti: ,,Er nokkuð að?`` |
22. | Gehasí svaraði: ,,Nei, en herra minn sendir mig og lætur segja þér: ,Rétt í þessu komu til mín frá Efraímfjöllum tveir sveinar af spámannasveinunum. Gef mér handa þeim talentu silfurs og tvo alklæðnaði.``` |
23. | Naaman svaraði: ,,Gjör þú mér þann greiða að taka við tveimur talentum!`` Og hann lagði að honum og batt tvær talentur silfurs í tvo sjóðu, svo og tvo alklæðnaði og fékk tveimur sveinum sínum, og báru þeir það fyrir honum. |
24. | En er þeir komu á hæðina, þá tók Gehasí við því af þeim, geymdi það í húsinu og lét mennina fara burt, og fóru þeir leiðar sinnar. |
25. | Síðan fór hann inn og gekk fyrir herra sinn. En Elísa sagði við hann: ,,Hvaðan kemur þú, Gehasí?`` Hann svaraði: ,,Þjónn þinn hefir alls ekkert farið.`` |
26. | Og Elísa sagði við hann: ,,Ég fylgdi þér í anda, þegar maðurinn sneri frá vagni sínum í móti þér. Nú hefir þú fengið silfur og munt fá klæði, olíutré, víngarða, sauði og naut, þræla og ambáttir.En líkþrá Naamans mun ávallt loða við þig og niðja þína.`` Gekk hann þá burt frá honum hvítur sem snjór af líkþrá. |
27. | En líkþrá Naamans mun ávallt loða við þig og niðja þína.`` Gekk hann þá burt frá honum hvítur sem snjór af líkþrá. |
← 2Kings (5/25) → |