← 1Samuel (17/31) → |
1. | Filistar drógu nú saman hersveitir sínar til bardaga, og söfnuðust þeir saman í Sókó, sem heyrir Júda, og settu þeir herbúðir sínar hjá Efes-Dammím, milli Sókó og Aseka. |
2. | En Sál og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Eikidalnum og bjuggust til bardaga í móti Filistum. |
3. | Og Filistar stóðu á fjalli öðrumegin og Ísraelsmenn stóðu á fjalli hinumegin, svo að dalurinn var á milli þeirra. |
4. | Þá gekk hólmgöngumaður fram úr fylkingum Filista. Hét hann Golíat og var frá Gat. Hann var á hæð sex álnir og spönn betur. |
5. | Hann hafði eirhjálm á höfði og var í spangabrynju, og vó brynjan fimm þúsund sikla eirs. |
6. | Hann hafði legghlífar af eiri á fótum sér og skotspjót af eiri á herðum sér. |
7. | En spjótskaft hans var sem vefjarrifur, og fjöðurin vó sex hundruð sikla járns. Skjaldsveinn hans gekk á undan honum. |
8. | Golíat gekk fram og kallaði til fylkinga Ísraels og mælti til þeirra: ,,Hví farið þér í leiðangur og búist til bardaga? Er ég ekki Filisti og þér þjónar Sáls? Veljið yður mann, sem komi hingað ofan til mín. |
9. | Sé hann fær um að berjast við mig og felli mig, þá skulum vér vera yðar þrælar, en beri ég hærra hlut og felli hann, þá skuluð þér vera vorir þrælar og þjóna oss.`` |
10. | Og Filistinn mælti: ,,Ég hefi smánað fylkingar Ísraels í dag. Fáið til mann, að við megum berjast.`` |
11. | Og þegar Sál og allur Ísrael heyrði þessi ummæli Filistans, þá skelfdust þeir og urðu mjög hræddir. |
12. | Davíð var sonur Ísaí, sem var Efratíti í Betlehem í Júda. Ísaí átti átta sonu. Á Sáls dögum var maðurinn orðinn gamall og hniginn að aldri. |
13. | Og þrír elstu synir Ísaí höfðu farið með Sál í stríðið. Og synir hans þrír, sem í stríðið höfðu farið, hétu: hinn elsti Elíab, annar Abínadab og hinn þriðji Samma. |
14. | En Davíð var yngstur. Þrír hinir eldri höfðu farið með Sál. |
15. | Og við og við fór Davíð frá Sál til þess að gæta sauða föður síns í Betlehem. |
16. | En Filistinn gekk fram morgna og kveld og bauð sig fram fjörutíu daga. |
17. | Dag nokkurn sagði Ísaí við Davíð son sinn: ,,Tak þú efu af þessu bakaða korni handa bræðrum þínum og þessi tíu brauð og flýt þér og færðu bræðrum þínum þetta í herbúðirnar. |
18. | Og þessa tíu mjólkurosta skalt þú færa hersveitarforingjanum, og fáðu að vita, hvernig bræðrum þínum líður, og komdu með jarteikn frá þeim. |
19. | En Sál og þeir og allir Ísraelsmenn eru í Eikidalnum og eru að berjast við Filista.`` |
20. | Davíð reis árla morguninn eftir og fékk sauðina hirði nokkrum til geymslu og lyfti á sig og hélt af stað, eins og Ísaí hafði boðið honum. Þegar hann kom til herbúðanna, gekk herinn fram í fylkingu, og æptu þeir heróp. |
21. | Stóðu nú hvorir tveggja búnir til bardaga, Ísrael og Filistar, hvor fylkingin gegnt annarri. |
22. | Og Davíð skildi við sig það, er hann hafði meðferðis, hjá manni þeim, er gætti farangursins, og hljóp að fylkingunni og kom og spurði bræður sína, hvernig þeim liði. |
23. | En meðan hann var að tala við þá, sjá, þá gekk fram hólmgöngumaðurinn _ hann hét Golíat, Filisti frá Gat _ úr fylkingum Filistanna og mælti sömu orðum sem fyrr, og Davíð hlýddi á. |
24. | En er Ísraelsmenn sáu manninn, hörfuðu þeir allir undan honum og voru mjög hræddir. |
25. | Og einn Ísraelsmanna sagði: ,,Hafið þér séð manninn, sem kemur þarna? Hann kemur til þess að smána Ísrael. Hverjum þeim, sem fellir hann, vill konungurinn veita mikil auðæfi og gefa honum dóttur sína og gjöra ætt hans skattfrjálsa í Ísrael.`` |
26. | Þá sagði Davíð við þá, sem næstir honum stóðu: ,,Hverju verður þeim manni umbunað, sem fellir Filista þennan og rekur svívirðing af Ísrael? Því að hver er þessi óumskorni Filisti, er dirfist að smána herfylkingar lifanda Guðs?`` |
27. | Og fólkið talaði til hans þessum sömu orðum: ,,Þessu verður þeim umbunað, sem fellir hann.`` |
28. | En er Elíab, elsti bróðir hans, heyrði, hvað hann talaði við mennina, þá reiddist hann Davíð og mælti: ,,Til hvers ert þú hingað kominn, og hjá hverjum skildir þú eftir þessa fáu sauði í eyðimörkinni? Ég þekki ofdirfsku þína og vonsku hjarta þíns: Þú ert hingað kominn til þess að horfa á bardagann.`` |
29. | Davíð svaraði: ,,Nú, hvað hefi ég þá gjört? Var mér ekki frjálst að spyrja?`` |
30. | Og hann sneri sér frá honum og til annars og mælti á sömu leið, og fólkið svaraði honum hinu sama sem hið fyrra skiptið. |
31. | En er það spurðist, sem Davíð hafði sagt, þá sögðu menn Sál frá því, og lét hann þá sækja hann. |
32. | Davíð sagði við Sál: ,,Enginn láti hugfallast! Þjónn þinn mun fara og berjast við Filista þennan.`` |
33. | Sál sagði við Davíð: ,,Þú ert ekki fær um að fara móti Filista þessum og berjast við hann, því að þú ert ungmenni, en hann hefir verið bardagamaður frá barnæsku sinni.`` |
34. | Davíð sagði við Sál: ,,Þjónn þinn gætti sauða hjá föður sínum. Ef þá kom ljón eða björn og tók kind úr hjörðinni, |
35. | þá hljóp ég á eftir honum og felldi hann og reif kindina úr gini hans, en ef hann réðst í móti mér, þreif ég í kampa hans og laust hann til bana. |
36. | Bæði ljón og björn hefir þjónn þinn drepið, og þessum óumskorna Filista skal reiða af eins og þeim, því að hann hefir smánað herfylkingar lifanda Guðs.`` |
37. | Og Davíð mælti: ,,Drottinn, sem frelsaði mig úr klóm ljónsins og úr klóm bjarnarins, hann mun frelsa mig af hendi þessa Filista.`` Þá mælti Sál við Davíð: ,,Far þú þá, og Drottinn mun vera með þér.`` |
38. | Og Sál færði Davíð í brynjukufl sinn og setti eirhjálm á höfuð honum og færði hann í brynju. |
39. | Og Davíð gyrti sig sverði sínu utan yfir brynjukuflinn og fór að ganga, því að hann hafði aldrei reynt það áður. Þá sagði Davíð við Sál: ,,Ég get ekki gengið í þessu, því að ég hefi aldrei reynt það áður.`` Og þeir færðu Davíð úr þessu, |
40. | en hann tók staf sinn í hönd sér og valdi sér fimm hála steina úr gilinu og lét þá í smalatöskuna, sem hann hafði með sér, í skreppuna, og tók sér slöngvu í hönd og gekk á móti Filistanum. |
41. | Filistinn gekk nær og nær Davíð, og maðurinn, sem bar skjöld hans, gekk á undan honum. |
42. | En er Filistinn leit til og sá Davíð, fyrirleit hann hann, af því að hann var ungmenni og rauðleitur og fríður sýnum. |
43. | Og Filistinn sagði við Davíð: ,,Er ég þá hundur, að þú kemur með staf á móti mér?`` Og Filistinn formælti Davíð við guð sinn. |
44. | Og Filistinn mælti við Davíð: ,,Kom þú til mín, svo að ég gefi fuglum loftsins og dýrum merkurinnar hold þitt.`` |
45. | Davíð sagði við Filistann: ,,Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Drottins allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað. |
46. | Í dag mun Drottinn gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, og hræ þitt og hræin af her Filista mun ég í dag gefa fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael, |
47. | og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að Drottinn veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er Drottins, og hann mun gefa yður í vorar hendur.`` |
48. | Og er Filistinn fór af stað og gekk fram og fór í móti Davíð, þá flýtti Davíð sér og hljóp að fylkingunni í móti Filistanum. |
49. | Og Davíð stakk hendi sinni ofan í smalatöskuna og tók úr henni stein og slöngvaði og hæfði Filistann í ennið, og steinninn festist í enni hans, og féll hann á grúfu til jarðar. |
50. | Þannig sigraði Davíð Filistann með slöngvu og steini og felldi hann og drap hann, og þó hafði Davíð ekkert sverð í hendi. |
51. | Þá hljóp Davíð að og gekk til Filistans, tók sverð hans og dró það úr slíðrum og drap hann og hjó af honum höfuðið með því. En er Filistar sáu, að kappi þeirra var dauður, lögðu þeir á flótta. |
52. | En Ísraelsmenn og Júdamenn lögðu af stað og æptu heróp og eltu Filista allt til Gat og að borgarhliði Ekron, svo að Filistar lágu vegnir jafnvel á veginum, sem lá inn um borgarhliðið bæði í Gat og Ekron. |
53. | Og Ísraelsmenn sneru aftur og hættu að elta Filista og rændu herbúðir þeirra. |
54. | En Davíð tók höfuð Filistans og hafði með sér til Jerúsalem, en vopn hans lagði hann í tjald sitt. |
55. | Þegar Sál sá Davíð fara móti Filistanum, mælti hann við Abner hershöfðingja: ,,Abner, hvers son er sveinn þessi?`` Abner svaraði: ,,Svo sannarlega sem þú lifir, konungur, veit ég það ekki.`` |
56. | Konungurinn mælti: ,,Spyr þú að, hvers sonur þetta ungmenni sé.`` |
57. | Og er Davíð sneri aftur og hafði lagt Filistann að velli, þá tók Abner hann og leiddi hann fyrir Sál, en hann hélt á höfði Filistans í hendi sér.Og Sál sagði við hann: ,,Hvers son ert þú, sveinn?`` Davíð svaraði: ,,Sonur þjóns þíns Ísaí Betlehemíta.`` |
58. | Og Sál sagði við hann: ,,Hvers son ert þú, sveinn?`` Davíð svaraði: ,,Sonur þjóns þíns Ísaí Betlehemíta.`` |
← 1Samuel (17/31) → |