← 1Samuel (15/31) → |
1. | Samúel sagði við Sál: ,,Drottinn sendi mig til þess að smyrja þig til konungs yfir lýð sinn Ísrael. Hlýð því boði Drottins. |
2. | Svo segir Drottinn allsherjar: Ég vil hefna þess, er Amalek gjörði Ísrael, að hann gjörði honum farartálma, þá er hann fór af Egyptalandi. |
3. | Far því og vinn sigur á Amalek og helgaðu hann banni og allt, sem hann á. Og þú skalt ekki þyrma honum, heldur skalt þú deyða bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna.`` |
4. | Sál bauð þá út liði og kannaði það í Telam: tvö hundruð þúsundir fótgönguliðs og tíu þúsundir Júdamanna. |
5. | Og Sál kom til höfuðborgar Amaleks og setti launsát í dalinn. |
6. | Og Sál sagði við Keníta: ,,Komið, víkið undan, farið burt frá Amalekítum, svo að ég tortími yður ekki með þeim, því að þér sýnduð öllum Ísraelsmönnum góðvild, þá er þeir fóru af Egyptalandi.`` Þá viku Kenítar burt frá Amalek. |
7. | Sál vann sigur á Amalek frá Havíla suður undir Súr, sem liggur fyrir austan Egyptaland. |
8. | Og Agag, konung Amaleks, tók hann höndum lifandi, en fólkið allt bannfærði hann með sverðseggjum. |
9. | Þó þyrmdi Sál og fólkið Agag og bestu sauðunum og nautunum, öldu og feitu skepnunum, og öllu því, sem vænt var, og vildu ekki bannfæra það. En allt það af fénaðinum, sem var lélegt og rýrt, bannfærðu þeir. |
10. | Þá kom orð Drottins til Samúels svohljóðandi: |
11. | ,,Mig iðrar þess, að ég gjörði Sál að konungi, því að hann hefir snúið baki við mér og eigi framkvæmt boð mín.`` Þá reiddist Samúel og hrópaði til Drottins alla nóttina. |
12. | Og Samúel lagði snemma af stað næsta morgun til þess að hitta Sál. Og Samúel var sagt svo frá: ,,Sál er kominn til Karmel, og sjá, hann hefir reist sér minnismerki. Því næst sneri hann við og hélt áfram og er farinn ofan til Gilgal.`` |
13. | Þegar Samúel kom til Sáls, mælti Sál til hans: ,,Blessaður sért þú af Drottni, ég hefi framkvæmt boð Drottins.`` |
14. | En Samúel mælti: ,,Hvaða sauðajarmur er það þá, sem ómar í eyru mér, og hvaða nautaöskur er það, sem ég heyri?`` |
15. | Sál svaraði: ,,Þeir komu með það frá Amalekítum, af því að fólkið þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að fórna þeim Drottni Guði sínum, en hitt höfum vér bannfært.`` |
16. | Samúel sagði við Sál: ,,Hættu nú, og mun ég kunngjöra þér það, sem Drottinn hefir talað við mig í nótt.`` Sál sagði við hann: ,,Tala þú!`` |
17. | Samúel mælti: ,,Er ekki svo, að þótt þú sért lítill í þínum augum, þá ert þú þó höfuð Ísraels ættkvísla, því að Drottinn smurði þig til konungs yfir Ísrael? |
18. | Og Drottinn sendi þig í leiðangur og sagði: ,Far þú og bannfær syndarana, Amalekíta, og berst við þá, uns þú hefir gjöreytt þeim.` |
19. | Hvers vegna hefir þú þá ekki hlýtt boði Drottins, heldur fleygt þér yfir herfangið og gjört það, sem illt var í augum Drottins?`` |
20. | Þá mælti Sál við Samúel: ,,Ég hefi hlýtt boði Drottins og hefi farið í leiðangur þann, er Drottinn sendi mig í, og hefi komið hingað með Agag, Amaleks konung, og Amalek hefi ég banni helgað. |
21. | En fólkið tók sauði og naut af herfanginu, hið besta af því bannfærða, til þess að fórna því í Gilgal Drottni Guði þínum til handa.`` |
22. | Samúel mælti: ,,Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna. |
23. | Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi.`` |
24. | Sál mælti við Samúel: ,,Ég hefi syndgað, þar eð ég hefi brotið boð Drottins og þín fyrirmæli, en ég óttaðist fólkið og lét því að orðum þess. |
25. | Fyrirgef mér nú synd mína og snú þú við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni.`` |
26. | Samúel svaraði Sál: ,,Ég sný ekki við með þér. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir og Drottinn hafnað þér og svipt þig konungdómi yfir Ísrael.`` |
27. | Samúel sneri sér nú við og ætlaði að ganga burt. Þá greip Sál í lafið á skikkju hans, og rifnaði það af. |
28. | Þá mælti Samúel til hans: ,,Rifið hefir Drottinn frá þér í dag konungdóminn yfir Ísrael og gefið hann öðrum, sem er betri en þú. |
29. | Ekki lýgur heldur vegsemd Ísraels, og ekki iðrar hann, því að hann er ekki maður, að hann iðri.`` |
30. | Sál mælti: ,,Ég hefi syndgað, en sýn mér þó þá virðingu frammi fyrir öldungum þjóðar minnar og frammi fyrir Ísrael að snúa við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni Guði þínum.`` |
31. | Þá sneri Samúel við og fór með Sál, og Sál féll fram fyrir Drottni. |
32. | Og Samúel mælti: ,,Færið mér Agag, Amaleks konung.`` Og Agag gekk til hans kátur. Og Agag mælti: ,,Sannlega er nú beiskja dauðans á brott vikin.`` |
33. | Þá mælti Samúel: ,,Eins og sverð þitt hefir gjört konur barnlausar, svo skal nú móðir þín vera barnlaus öðrum konum framar.`` Síðan hjó Samúel Agag banahögg frammi fyrir Drottni í Gilgal. |
34. | Því næst fór Samúel til Rama, en Sál fór heim til sín í Gíbeu Sáls.Og Samúel sá ekki Sál upp frá því allt til dauðadags, því að Samúel var sorgmæddur út af Sál, og Drottin iðraði þess, að hann hafði gjört Sál konung yfir Ísrael. |
35. | Og Samúel sá ekki Sál upp frá því allt til dauðadags, því að Samúel var sorgmæddur út af Sál, og Drottin iðraði þess, að hann hafði gjört Sál konung yfir Ísrael. |
← 1Samuel (15/31) → |